Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Ráðgjafi

Tíu lykilþættir að árangursríku foreldrasamstarfi

Tíu lykilþættir að árangursríku foreldrasamstarfi

Að takast á við skilnað og breytingarnar í kjölfarið er oftast nær rússibanareið tilfinninga. Fólk sem slítur samvistum upplifir jafnvel tilfinningar sem það vissi ekki að það byggi yfir. Eina stundina er eins og allt gangi upp og þá næstu er viðkomandi á barmi taugaáfalls. Fólk upplifir sig berskjaldað og að tilfinningarnar sem upp koma séu afar djúpstæðar. Það upplifir særindi, reiði, höfnun, niðurlægingu og hræðslu. Í slíku samblandi af neikvæðum tilfinningum og óvissu er reiði oft eðlilegasta og algengasta viðbragðið. Tilfinningarnar þurfa að komast í farveg og helst út með reiði. Oftar en ekki liggur það beinast við að beina útrásinni að hinu foreldrinu. 

Þá kemur að því mikilvægasta, hvers vegna nákvæmlega þarna á þessum tímapunkti foreldrar þurfa að vanda sig. Það er vegna þess að ágreiningur foreldra í og eftir skilnað er sterkasta spágildið fyrir vanlíðan barna í kjölfar skilnaðar. Því oftar og meiri sem ágreiningurinn er því erfiðara verður fyrir barnið að fóta sig eftir skilnaðinn. 

Í þessum tilfinningalega skilnaðarrússibana, sem fræðin segja að taki allt að tveimur árum er mikilvægt að hafa ákveðin lykilatriði að leiðarljósi til að tryggja velferð barnsins og stuðla að árangursríku foreldrasamstarfi. 

Tíu lykilþættir að árangursríku foreldrasamstarfi:

1. Jákvætt hugarfar

Foreldri með jákvætt hugarfar er betur í stakk búið að mæta þörfum barnsins í breyttum aðstæðum í kjölfar skilnaðarins. Með jákvæðu hugarfari er foreldri einnig líklegra til að sjá björtu hliðarnar og taka frekar eftir því jákvæða heldur en því neikvæða í fari hins foreldrisins. Það hafa allir sína kosti og galla og með því að einblína á kostina í stað gallana er líklegra að foreldrasamstarfið verði árangursríkara sem og líðan barnsins í aðstæðunum betri. Til að stuðla að jákvæðu hugarfari þarf foreldri að huga að eigin líðan og setja súrefnisgrímuna fyrst á sig. Í því felst að mæta svefnþörfum sínum, stunda reglulega hreyfingu og nærast vel. Upplifi foreldri þunglyndi, kvíða, depurð eða stjórnlausa reiði gæti verið gagnlegt að leita til fagaðila og fá aðstoð við að takast á við aðstæðurnar.

2. Ákvarðanir út frá hagsmunum barnsins

Til að tryggja velferð barnsins í breyttum aðstæðum og fara ekki út af sporinu í þeim tilfinningaflækjum sem skilnaðinum fylgir þurfa foreldrar að vera meðvitaðir um að taka ákvarðanir út frá hagsmunum barnsins. Sú ákvörðun á einnig við um viðbrögð og hegðun foreldris. Stundum er talað um „barnagleraugun“ eða „barnaáttavitan” þar sem hagsmunir barnsins vísa leiðina í ákvarðanatöku foreldris.  Að vera meðvitaður um viðbrögð og ákvarðanir er sem dæmi að svara ekki hinu foreldrinu til baka af fullum hálsi eða stofna til átaka og ágreinings. Eins að flytja ekki langt frá heimili barnsins eða stofna til nýs sambands of snemma í skilnaðarferlinu.

3. Samráð við ákvörðunartöku

Í farsælu foreldrasamstarfi hafa báðir foreldrar færi á að segja sína skoðun og hafa áhrif á ákvarðanir er varðar barnið. Stundum þarf annað foreldrið á endanum að taka ákvörðunina sem dæmi ef foreldrar eru ósammála um mikilvæg atriði svo sem lyfjagjöf, skólavistun og slíkt. Þrátt fyrir það er gagnlegt að fá hitt foreldrið að borðinu og fá fram afstöðu þess. Það styrkir foreldrasambandið og hefur jákvæð áhrif á aðstæður barnsins. 

4. Virðing fyrir foreldrahlutverkinu

Þrátt fyrir að hlutverki foreldra sem maka hvors annars sé lokið mun foreldrahlutverkið aldrei taka enda. Að sjá mikilvægi hins foreldrisins og bera virðingu fyrir hlutverki þess í lífi barnsins mun ýta undir jákvætt foreldrasamstarf. 

5. Stuðla að og styðja þátttöku foreldris í lífi barnsins

Foreldrar þurfa að skapa rými fyrir hvort annað til virkrar þátttöku í lífi barnsins. Mikilvægt er að skipti barnsins milli foreldra fari fram á auðveldan hátt, án átaka. Foreldrar þurfa að sætta sig við að vera ekki alltaf sammála um alla hluti. Þeir hafa báðir hugmyndir og innsæi í aðstæður barnsins sem þeir geta deilt og þurfa að vera opnir fyrir hugmyndum hvers annars. 

6. Að skilja við það gamla

Grunnurinn að farsælu foreldrasamstarfi felst í því að geta aðskilið tilfinningalegt samband/parsamband frá foreldrasambandi. Leitist við að byggja ekki framtíðarmöguleika foreldrasamstarfs á reynslunni af því að vera í ástarsambandi. 

7. Bein samskipti

Foreldrar ættu að leitast við að eiga í beinum samskiptum við hvort annað með samtölum, símtölum, tölvupóstum eða skilaboðum. Forðist að biðja barnið um að bera á milli upplýsingar eða skilaboð. Það getur auðveldlega valdið misskilningi og er ábyrgð sem forðast á að setja á börn. Orðatiltækið „að skjóta sendiboðann“ á vel við í þessu samhengi þar sem barnið sem bera þarf skilaboðin verður auðveldlega skotspónn viðbragða foreldrisins sem þau fær. Þar að auki er það léttir fyrir barnið að upplifa það að foreldrar þess geti rætt um það og tekið ákvarðanir án þess að það þurfi sjálft að bera ábyrgðina. 

8. Miðlað upplýsingum

Deilið öllum upplýsingum er varða barnið og sem varðar persónulega hagi foreldris og getur haft áhrif á barnið (nýr maki, ný vinna, flutningar, veikindi). Foreldrar deila stundum aðeins neikvæðum og/eða nauðsynlegum upplýsingum er varðar barnið s.s. veikindi, slys, leikskólafrí. Mikilvægt er að venja sig á að deila einnig jákvæðum upplýsingum og því sem foreldrum gæti þótt léttvægt en eru stórtíðindi í augum barnsins s.s. að eignast nýjan vin, ná að setja saman legóhús, læra að fara sjálft í skó. 

9. Að virða samninga

Traust er lykilatriði í farsælu foreldrasamstarfi. Grundvallaratriði til að byggja upp traust er að virða þá samninga sem foreldrar hafa gert með sér svo sem þá sem varða fjárhagslegar skuldbindingar og umgengni. Ef samið var um skiptingu reikninga eða meðlag þarf að standa við það sem um var samið og greiða það. Það sama á við um foreldri sem þiggur meðlag, mikilvægt er að nota það í þann kostnað sem því er ætlað að standa undir. Ef samið var um umgengni og ákveðnar tíma- og dagsetningar er mikilvægt að standa við það sem um var samið. Þó er mikilvægt að sýna sveigjanleika og muna að allir eru mannlegir og geta orðið á mistök. Sveigjanleiki er sérstaklega mikilvægur þegar kemur að umgengni þar sem meta þarf alla ramma hennar út frá aðstæðum barnsins.

10. Flytja eignir barns á milli heimila

Það getur verið töluvert álag á barn að bera ábyrgð á að flytja dótið sitt á milli heimila. Muna hvað það þarf að nota á næsta heimili og rogast með farangurinn í skólann og á milli staða. Foreldrar, sem tóku ákvörðunina að skilja, ættu að bera ábyrgð á þeim aðstæðum sem af ákvörðuninni sköpuðust. Í því felst meðal annars að aðstoða barnið við að ákveða hvaða hlutir eiga og þurfa að fara á milli heimilanna og flytja það til hins foreldrisins. Foreldrar ættu að forðast að falla í þá gildru að gera þá hluti sem gleymast og/eða týnast að ágreiningsefni sín á milli. Það er eðlilegt, upp að vissu marki að eitthvað gleymist og týnist. Foreldrar ættu einnig að forðast að halda hlutum barnsins í gíslingu eða leyfa því ekki að fara með það sem það vill á milli heimilanna. Einfalda reglan er sú að barnið sjálft á hlutina og ræður hvað fer á milli heimila. Gleymist eitthvað ættu foreldrar sjálfir að bera ábyrgð á því að koma því á milli staða, barnið á ekki að þurfa að bera ábyrgð á því. Það er flókið að búa á tveimur stöðum og foreldrar þurfa að leita allra leiða til að gera það sem auðveldast fyrir barnið.