Sáttamiðlun

Sáttamiðlun er aðferð til lausnar ágreinings þar sem tveir eða fleiri aðilar taka sjálfviljugir þátt. Markmið sáttamiðlunar er að leita lausna sem deiluaðilar eru sáttir við og bera ábyrgð á. Í sáttamiðlun þar sem markmiðið er að leysa ágreining vegna aðstæðna barns þarf sáttin fyrst og fremst að snúa að hagsmunum barnsins. Hjá Tveimur heimilum er áhersla lögð á þátttöku og samtal foreldranna sjálfra en stjúpforeldrar og aðrir sem að málinu koma eru einnig hvattir til þátttöku. Aðilar verða að taka sjálfviljugir þátt í sáttameðferð í fyllsta trúnaði og eiga sjálfir, með aðstoð sáttamanns að komast að lausn á ágreiningi.

Sáttamiðlun er talin bera mikinn árangur í umgengnis- og forsjárdeilum þar sem að aðilum gefst færi á að gera hvor öðrum grein fyrir óskum sínum, hagsmunum, þörfum, upplifunum, væntingum og vonbrigðum og skapa þannig grundvöll til einlægari samræða heldur en möguleiki er á í dómsmáli.

Samkvæmt Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna (13. grein) eiga börn rétt á að tjá sig um mál sem þau varða. Því býðst börnum að tjá afstöðu sína sem hluta af sáttamiðlun foreldra. Þá býðst börnum einnig að taka þátt í sáttamiðlun foreldra teljist það til hagsmuna þeirra.

Sú nálgun í sáttamiðlun í málum er varða hagsmuni barna kallast barnamiðuð sáttamiðlun (e. child focus mediation). Ólíkt hefðbundinni sáttamiðlun þar sem tveir aðilar deila snýst lausnin um hagsmuni þeirra en í barnamiðaðri sáttamiðlun snýst lausnin um hagsmuni barnsins samtvinnaða við hagsmuni foreldranna. Börn sitja alla jafna ekki sáttafundi með foreldrum en hagsmunir þeirra vega hvað þyngst í allri umræðu foreldranna.

Fyrirkomulag sáttamiðlunar:

  • Aðilar sammælast um að leysa ágreining sinn með hjálp sáttamiðlunar.
  • Sáttamiðlari fær staðfestingu á þátttöku beggja í tölvupósti.
  • Ef ekki næst í aðila er hann boðaður með bréfpósti að ósk hins.
  • Ef ekki næst í aðila með fyrstu boðun er boðun send í ábyrgðarpósti.
  • Heimilt er að gefa út sáttavottorð ef aðili hefur verið boðaður í tvígang.
  • Aðilar og sáttamaður gera með sér samkomulag um sáttamiðlun í upphafi sáttamiðlunar.
  • Sáttafundur hefst með opnun sáttamiðlara um markmið fundarins, hlutverk hans og aðila og umfjöllun um trúnað.
  • Aðilar gera grein fyrir upplifun þeirra af ágreiningnum.
  • Hagsmunir, sjónarhorn og þarfir aðila ræddir.
  • Mögulegar lausnir settar upp.
  • Umræður um lausnir.
  • Komist er að samkomulagi með samningi aðila.
  • Náist ekki samkomulag foreldra getur sáttamiðlari gefið út sáttavottorð.

Sáttavottorð

Sáttamanni er heimilt að gefa út sáttavottorð eftir að hafa tvíboðað aðila á fund og ef sáttafundir hafi farið fram og aðilar ekki náð sátt. Í sáttavottorði kemur fram hvaða fundir fóru fram, hvers efnis ágreiningur aðila er og hver afstaða aðila og barna sé. Sáttavottorð er gilt í sex mánuði og þurfa aðilar að stefna máli fyrir dómstól innan þess tímaramma.

Gras í gangstétt

Verðskrá

Viðtöl og önnur samskipti

Viðtal eða sáttamiðlun (tveir aðilar): 23.000 kr.
Einstaklingsviðtal við aðila og/eða barn: 19.000 kr.
Tölvupóstsamskipti og eftirfylgni: 5.000 kr. vikan.

Önnur þjónusta

Boðunarbréf: 3.500 kr.
Boðunarbréf í ábyrgð: 6.000 kr.
Útgáfa sáttavottorðs: 15.000 kr.
Umgengnissamningur: 10.000 kr.
Eftirlit með umgengni: 19.000 kr. hver klukkustund

Forfallagjald

Tilkynna þarf forföll fyrir kl 15 deginum áður. Að öðrum kosti verður rukkað forfallagjald sem nemur helmingi við kostnað bókaðs tíma.