Námskeið fyrir starfsfólk í leik- og grunnskólum: Þarfir barna á tveimur heimilum

Kennarar námskeiðsins eru Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir og Davíð Alexander Östergaard. Ragnheiður er félagsráðgjafi M.A, stofnandi Tveggja heimila og sérfræðingur í málefnum barna hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Davíð er stuðningsfulltrúi á vegum Reykjavíkurborgar, hefur lokið B.A. í uppeldis- og menntunarfræði, er nemandi á meistarastigi í sérhæfingu á foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf og er jafnframt aðstoðarkennari hjá HÍ. Bæði eru þau skilnaðarráðgjafar hjá SES-Pro og foreldrar barna á tveimur heimilum.

Ragnheiður Lára og Davíð Alexander

Námskeiðið fjallar um líðan barna sem búa á tveimur heimilum, það álag sem því fyrirkomulagi fylgir gjarnan og hvaða áhrif skilnaður eða sambúðarslit foreldra getur haft á þroska, aðlögun og afdrif viðkomandi barna. Lögð er áhersla á að þeir sem námskeiðið sitja þekki þau áhrif sem skilnaður kann að hafa á börn og að þau kynnist gagnlegum nálgunum og hagnýtum aðferðum svo mæta megi börnum í þessum aðstæðum með hætti sem stuðlar að stöðugleika, fyrirsjáanleika og vellíðan barnsins innan skólakerfisins

Um er að ræða eins og hálfs klukkustunda fræðslu með umræðum eða þriggja klukkustunda námskeið með vinnustofu.

Niðurstöður rannsókna hafa leitt í ljós að börn sem upplifa samvistarslit foreldra sinna og/eða búa á tveimur heimilum standa gjarnan höllum fæti gagnvart jafningjum sínum og má því áætla að mörg þeirra hafi sértækar þarfir sem þarf að mæta. Þau einkenni sem kunna að koma fram eru af ýmsum toga og birtast til að mynda í námsárangri, félagslegri þátttöku, eða ýmiskonar inn- og úthverfum vanda.

 Skólinn er talinn einn besti vettvangurinn til þess að hlúa að geðrækt barna, þroska og félags- og tilfinningahæfni þeirra. Í ljósi þess er mikilvægt að viðkomandi börnum og fjölskyldum sé mætt með faglegum og styðjandi hætti. Fyrst og fremst getur aukin þekking þátttakenda á viðfangsefninu stuðlað að betri líðan barna en ekki er sjálfgefið að starfsfólk leik- og grunnskóla hafi þekkingu á hvernig best sé að nálgast börn og foreldra á tveimur heimilum

Á námskeiðinu verður stuðst við fræðilega og faglega nálgun á viðfangsefnið. Námskeiðið samanstendur af fyrirlestrum, umræðu, hópavinnu og stefnumótun þátttakenda og byggist það á bæði faglegri og persónulegri reynslu kennara, niðurstöðum rannsókna ásamt raunverulegum dæmum úr faglegu starfi leik- og grunnskólakennara.

Á námskeiðinu er fjallað um: 

• Helstu álagsmerki sem kunna að koma upp hjá börnum sem búa á tveimur heimilum

• Eðli og birtingarmyndir þeirra áhrifa sem samvistarslit kunna að hafa á börn og fjölskyldur þeirra 

• Hlutverk skólans í uppeldi, umönnun og geðrækt barna 

• Aðferðir sem stuðla að vellíðan, fyrirsjáanleika og öryggistilfinningu barna sem búa á tveimur heimilum

• Nálganir sem draga úr neikvæðum áhrifum samvistarslita á náms-, félags- eða tilfinningalega hæfni barnsins 

• Aðferðir til að skipuleggja umgjörð og ferla sem varða til dæmis skiptidaga, tilfinningar barnsins og samskipti við viðkomandi foreldra

• Nálganir sem styðja börn í að takast á við það álag sem fylgir því að búa á tveimur heimilum og þær tilfinningar sem kunna að koma fram á skólatíma 

Ávinningur: Þátttakendur öðlast færni til þess að þekkja álagsmerki í hegðun, líðan eða viðmóti barnsins sem gefa til kynna að breytingar í fjölskyldumynstri þess hafi sjáanleg eða undirliggjandi áhrif á það. Þeir læra að bregðast við tilfinningum barnsins og hvernig best sé að nálgast það í samtali um eigin aðstæður. Þátttakendur fá einnig fræðslu um hvernig hægt er að miðla upplýsingum til foreldra sem varðar skipulag í kringum barnið og tilfallandi úrræði. Þátttakendur fá jafnframt leiðbeiningar um samræmt verklag innan skólans og hvernig hægt sé útfæra það í takt við aðstæður og þarfir viðkomandi barns og fjölskyldu þess.

Staðsetning: Á viðkomandi vinnustað eftir samkomulagi við stjórnendur.

Hafðu samband

Leave this field blank
Ég vil fá upplýsingar um námskeið og viðburði á vegum Tveggja heimila.