Hvað þurfa foreldrar að hafa í huga þegar þeir ala upp barn á tveimur heimilum? Hversvegna skiptir foreldrasamvinna máli? Hver gæti upplifun barns af slíkum aðstæðum verið? Markmið þessarar greinar er að varpa ljósi á reynslu og hugarheim barna sem búa á tveimur heimilum.
Sú ákvörðun að skilja, slíta samvistum eða hefja ekki samband með barnsforeldri getur verið foreldrum erfið. Í slíkum aðstæðum hafa foreldrar ef til vill áhyggjur af framtíðaraðstæðum barnsins og möguleikum þess til að búa við fullnægjandi aðstæður.
Fyrir börn er skilnaðurinn vissulega töluverð breyting á aðstæðum. Heimsmynd barnsins: „ég, mamma og pabbi” breytist og það getur tekið barnið tíma að púsla saman nýrri sýn á lífið og tilveruna. Börn hafa ótrúlega aðlögunarfærni og ef vel er staðið að málum ættu þau að hafa alla möguleika á að njóta sömu lífskjara og börn foreldra í parsambandi.
Rannsóknir sýna að það sem hefur helst áhrif á velferð barna í kjölfar skilnaðar er hvort þau hafi tækifæri á að vera í tengslum við báða foreldra sína og hvort foreldrar geta starfað í sameiningu að velferð barnsins.
Uppbyggileg þátttaka foreldris í lífi barns, hversdagsleg umönnun og tilfinningatengsl, skipta sköpum þegar kemur að velferð barns í kjölfar skilnaðar. Að sama skapi spáir ágreiningur eða átök foreldra í og eftir skilnað mestu um vanlíðan barns í kjölfar skilnaðar. Börn eiga rétt á því að alast upp við öryggi og kærleik og án þess að dragast inn í deilur foreldra eða hafa áhyggjur sem ekki eru í samræmi við aldur þeirra og þroska.
Með jákvæðu foreldrasamstarfi (e. positive coparenting) gefst foreldrum færi á að vinna að velferð barns eftir skilnað. Gæði foreldrasamstarfs eftir samvistarslit hefur talsverð áhrif á getu barns til að aðlagast aðstæðum og getur verið lykilþáttur í farsælum uppvexti þess. Það að foreldrar geti átt í jákvæðum samskiptum og lagt sig fram við að starfa í sameiningu að uppeldi barnsins hefur ekki einungis jákvæð áhrif á líðan og aðstæður barnsins heldur einnig á foreldrana sjálfa og þeirra foreldrahlutverk.
Yfirleitt eru það sömu gryfjurnar sem foreldrar barna á tveimur heimilum falla í og geta leitt til átaka og ágreinings. Með því að leita sér ráðgjafar strax í byrjun foreldrasamstarfs eða við upphaf ágreinings er hægt að tileinka sér verkfæri foreldrasamvinnu og fyrirbyggja föll í gryfjur framtíðarinnar.
Á ráðgjafarstofuna Tvö heimili leita foreldrar sem vilja bæta samstarf og vinna með það sem betur má fara. Ástæðurnar geta verið langvarandi samskiptavandi eða ósk um aðstoð til að takast á við nýjar aðstæður s.s. flutninga eða óskir barns um breytt fyrirkomulag. Í ráðgjöfinni á Tveimur heimilum er notast við ákveðin verkfæri til að skerpa á samstarfi foreldra og bæta aðstæður. Verkfærin miða að samstarfi, upplýsingagjöf, samskiptum og sjónarhorni barnsins:
1. Sáttmáli um foreldrasamstarf:
Slíkir sáttmálar kallast á ensku parenting plan og teljast víðast hvar mikilvægur grunnur að foreldrasamstarfi og í sumum löndum forsenda þess að foreldrar geti sótt um skilnað að lögum. Í slíkum sáttmála kemur meðal annars fram:
- hvernig búsetu og umgengni barnsins skuli háttað og jafnvel skuldbinding foreldra að búa í sama eða nálægu sveitarfélagi.
- hvernig samskiptareglur foreldra skuli vera og hvernig eigi að bregðast við ágreiningi í samstarfinu.
- hvaða ákvarðanir eigi að taka í sameiningu og hvaða ákvarðanir í sitthvoru lagi
- hvaða dót eigi að fara á milli heimila með barninu og með hvaða hætti.
- hvernig eigi að skipta kostnaði vegna barnsins.
- hvaða reglur og gildi eiga að vera til staðar.
2. Samskipti og upplýsingagjöf:
Foreldrar sem ala upp barn í sameiningu á tveimur heimilum verða að geta átt í samskiptum með einhverjum hætti. Börn eiga rétt á því að foreldrar hafi upplýsingar um aðstæður þess og líðan þegar þau eru hjá hinu foreldrinu. Foreldrar þurfa að geta séð líf barna sinna heilstætt til að geta áttað sig á þörfum þeirra og mætt þeim. Það er sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða börn með sértækan vanda, sem eru langveik, með greiningar eða eru að ganga í gegnum erfið þroskatímabil.
Upplýsingagjöf getur snúið að almennum upplýsingum um líðan barnsins hjá hinu foreldrinu. Hvort barnið upplifði eitthvað ánægjulegt eða erfiðleika. Hvernig félagslegum tengslum barnsins er háttað. Hvort barnið tók einhverjum framförum í þroska. Hvernig svefn barnsins var. Hvort barnið ræddi eitthvað sérstakt eða fékk áhuga á einhverju nýju. Hvort barnið gerði eitthvað snjallt eða sem kom á óvart. Þá er einnig mikilvægt að upplýsa foreldrið um það sem er á döfinni hjá barninu og hvort það þurfi að taka einhverjar ákvarðanir er varða barnið s.s. kaup á nýjum útifatnaði eða skrá það í tómstundir.
Eigi foreldrar í erfiðleikum með að ræða saman geta tölvupóstsamskipti létt þar á. Til að gefa barninu þá upplifun að foreldri hafi innsýn í aðstæður þess og samskipti foreldra séu góð er gagnlegt að ræða við barnið um það sem það gerði hjá hinu foreldrinu. Sem dæmi að segja: „Pabbi sagði mér að það hefði gengið vel hjá ykkur í síðustu viku og að þú hefðir prófað að taka strætó sjálfur!”
3. Sjónarhorn barnsins:
Foreldrar ættu að leitast við að setja sig í spor barnsins og velta því fyrir sér hverjar séu þarfir þess og áskoranir við að fara á milli tveggja heimila. Markmið foreldra ætti að vera að skapa samfellu í lífi barnsins til að það upplifi ekki tilveru sína kaflaskipta hjá hvoru foreldri fyrir sig.
Þrátt fyrir að heimilin séu tvö og mjög líklega ólík (af því að einstaklingar eru ólíkir) þarf barnið að upplifa að veruleiki þess á hvoru heimili fyrir sig skapi ákveðna heild. Til að skapa þá heild gæti verið gagnlegt að hafa myndir af hinu foreldrinu í herbergi barnsins, leyfa barninu að fara með dótið sitt á milli heimila, hafa dagatal á heimilinu þar sem merkt er við hvenær barnið er hjá hvoru foreldri fyrir sig og hvaða atburðir séu á döfinni. Foreldrar ættu að leitast við að hafa samræmdar reglur og kröfur til barnsins á heimilunum svo barnið viti að hverju það gengur á báðum stöðum.
Barnið þarf að upplifa að það eigi alltaf báða foreldra sína að þrátt fyrir að vera hjá öðru þeirra hverja stund. Þrátt fyrir að umgengni sé til helminga, önnur hver helgi eða löng helgi o.s.frv. eru foreldrar alltaf foreldrar barnsins síns, líka þegar það er hjá hinu foreldrinu. Barnið þarf að upplifa að það hafi aðgengi að báðum foreldrum sínum og því þurfa samskipti barns og foreldris að vera leyfileg og aðgengileg.
4. Hitt foreldrið sem hluti af lífinu:
Foreldrar þurfa eftir fremsta megni að leitast við að upplifa hitt foreldrið sem part af sínu lífi, ekki sem einstakling sem stendur fyrir utan þess félagslega hring. Hér er um að ræða ákveðna hugarfarsbreytingu, foreldrar eru partur af lífi hvors annars því þeir, saman, eru foreldrar barnsins.
Þrátt fyrir ágreining og mögulega slæma framkomu hafa allir einhverja jákvæða eiginleika. Mikilvægt er að leggja sig fram við að sjá þá í stað þess að einblína á þá neikvæðu. Til að temja sér þetta viðhorf er hægt að leitast við að tala markvisst um hitt foreldrið á jákvæðan hátt í eyru barnsins t.d. þegar verið er að gera eitthvað skemmtilegt eins og að spilað að segja: „pabbi þinn er svo góður í þessu spili. Það er alltaf svo gaman að spila með honum“.
Sumt af ofantöldu er ef til vill óhugsandi fyrir marga fráskilda foreldra en það er til svo mikils að vinna. Ekki eingöngu fyrir börnin sjálf heldur líka fyrir foreldrana og aðra þá sem nærri standa. Í ágreiningi foreldra er aðeins einn sem tapar sama hver niðurstaðan verður og það er barnið.
Grein birtist í Umhyggjublaðinu 2020.