Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Ráðgjafi

Lögheimili, umgengni, samvinna foreldra: hvað skiptir barnið mestu máli?

Lögheimili, umgengni, samvinna foreldra: hvað skiptir barnið mestu máli?

Í okkar samfélagi búa hundruðir barna, jafnvel þúsundir á tveimur eða fleiri heimilum þar sem foreldrar þeirra eru ekki í sambúð. Ég veit ekki nákvæmar tölur en við ýmist þekkjum til, vorum sjálf eða eigum börn í slíkum aðstæðum. Sjálf fell ég undir allt að ofantöldu þar sem ég bæði var barn í umgengni og hef alið upp barn í foreldrasamvinnu síðastliðin sjö ár. Því eru málefni barna sem búa á tveimur heimilum mér afar hugleikin.

Að undanförnu hefur umræðan um aðstæður barna sem búa á tveimur heimilum verið nokkuð öfgakennd að mínu mati og jafnvel ekki endurspeglað veruleika lang flestra í þessari stöðu. Sú mynd sem dregin er upp af fjölskyldum í slíkum aðstæðum bæði af fjölmiðlum og ákveðnum baráttuhópum sýnir mæður sem tálma umgengni eða feður sem eru skaðlegir börnum sínum á einhvern hátt. Slík umræða er að sjálfsögðu nauðsynleg en hún getur samt sem áður valdið óöryggi hjá foreldrum sem eru að hefja foreldrasamstarf. Raunveruleikinn er sá að flestum foreldrum tekst að ala upp börn sín í sátt og samlyndi í kjölfar skilnaðar. Jákvæð foreldrasamvinna fráskilinna foreldra er nefnilega ekki hetjudáð einstakra foreldra heldur raunveruleiki margra og vel gerleg í okkar samfélagi þrátt fyrir ramma íslenskrar löggjafar. Ýmsir þættir geta hindrað foreldrasamstarf svo sem foreldra- og samskiptafærni sem og átök eða ofbeldi í samskiptum foreldranna. Í slíkum tilvikum þurfa foreldrar ef til vill að leita annarra leiða til að tryggja hagsmuni barna sinna.

Barn á rétt á því að umgangast foreldra sína og mynda við þá tengsl. Það er að segja séu foreldrar barni sínu ekki skaðlegir á einhvern hátt. Tengsl myndast með samskiptum og samveru og því skiptir talsverðu máli hversu mikinn tíma börn fá að verja með foreldrum sínum. Til að foreldri geti sinnt hlutverki sínu þarf það að fá tíma með barninu og svigrúm til að annast hversdagslegar þarfir þess, s.s. lesa fyrir svefninn, aðstoða við heimalærdóm og fylgja í skólann. Það þýðir ekki endilega að umgengni þurfi að vera algjörlega hnífjöfn heldur sýna rannsóknir að umgengni allt frá 30% geti verið næg til að barnið upplifi bæði heimilin sem „heima”. Fyrirkomulag á umgengni þarf að skoða út frá aðstæðum barnsins hverju sinni, það sem hentar einu barni hentar ef til vill ekki öðru og það sem hentar barni á einum tíma hentar ef til vill ekki seinna meir.

Jákvæð foreldrasamvinna (e. Positive Co-Parenting) miðar að því að foreldrar sinni uppeldi barns í samvinnu á jákvæðan hátt. Hér er ekki verið að fjalla um lagahugtök s.s. sameiginleg forsjájöfn umgengni eða tvöfalt lögheimili. Hér er verið að fjalla um rétt barnsins til að eiga foreldra sem starfa saman að hagsmunum þess. Rannsóknir sýna að börnum sem alast upp við jákvæða foreldrasamvinnu vegnar nánast jafn vel í lífinu og börnum sem alast upp í sambúð foreldra. Slík samvinna virðist hafa svo mikil áhrif á á framtíð barna að mögulega ættum við sem samfélag að taka málefni barna sem búa á tveimur heimilum fyrir sem lýðheilsumál.

Hvernig getum við skapað aðstæður fyrir foreldra til að eiga í jákvæðri foreldrasamvinnu?

Í fyrsta lagi þarf að bjóða foreldrum aðstoð við að móta og skilgreina samstarf sitt með sérhæfðri ráðgjöf. Til dæmis með ráðgjöf um hvernig best sé að haga aðstæðum barnsins eftir skilnað eða sambúðarslit. Þá með því að aðstoða og styðja foreldra við gerð sáttmála um foreldrasamstarf. Slíkir sáttmálar kallast á ensku parenting plan og teljast víðast hvar mikilvægur grunnur að foreldrasamstarfi og jafnvel forsenda þess að foreldrar geti sótt um skilnað að lögum. Í slíkum sáttmála kemur meðal annars fram hvernig búsetu og umgengni barnsins skuli háttað og jafnvel skuldbinding foreldra að búa í sama eða nálægu sveitarfélagi. Þá hvernig samskiptareglur foreldra skuli vera og hvernig eigi að bregðast við ágreiningi í samstarfinu.

Í öðru lagi geta stjórnvöld stuðlað að foreldrasamvinnu með hvötum t.d. í formi aukinna barnabóta og að einhverju leyti jafnað lagalega stöðu foreldra sem ala upp barn á tveimur heimilum. Sem dæmi að barn geti haft aðsetur hjá einu foreldri en lögheimili hjá hinu. Slík búseta gæti falið í sér að reikningar og barnabætur vegna barnsins skiptust sjálfkrafa milli foreldra og báðir foreldrar gætu skráð barnið til tómstunda. Þó þyrfti annað foreldri að hafa frekari ákvörðunarrétt sem aðeins reyndi á ef foreldrar kæmust ekki að samkomulagi um mikilvæg málefni. Því hver annar en foreldri barns er hæfari til að taka ákvörðun um málefni barnsins ef foreldrar eru ekki sammála? Til að foreldrar fengju slíka sameiginlega skráningu þyrftu að vera til staðar ákveðin skilyrði sem þeir þyrftu að uppfylla s.s. undirritaður sáttmáli um foreldrasamvinnu.

Hver ber ábyrgðina? Fyrst og fremst bera foreldrar sjálfir ábyrgð á sínu foreldrasamstarfi. Þrátt fyrir lagalegar og samfélagslegar aðstæður tekst foreldrum nú þegar að ala börn sín upp í sátt og samlyndi. Samt sem áður er mikilvægt að ríki og sveitarfélög skapi betri aðstæður fyrir börn sem búa á tveimur heimilum með sérhæfðari lausnum sem stuðla að jákvæðri foreldrasamvinnu.

Von mín er sú að það verði venja í okkar samfélagi að foreldrar starfi í sameiningu að uppeldi barna sinna þrátt fyrir að vera ekki í sambúð. Foreldrasamvinna ætti að vera almenn regla en ekki undantekning og það ætti jafnframt sjálfsagt að þykja vænt um barnsföður/móður sína.

Börn sem búa á tveimur heimilum óska sér þess helst að foreldrar þess geti verið vinir.

Getum við reynt að uppfylla þá ósk?