Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Ráðgjafi

Tengslabrúin

Tengslabrúin

Fyrstu mánuðina og jafnvel fyrsta árið eftir skilnað okkar foreldranna tók strákurinn minn stundum allt að tveggja tíma reiðiskast rétt eftir að hann kom í umgengni. Það þurfti ansi lítið til að koma kasti af stað. Eitt skiptið hafði ég keypt vitlausan fiskrétt í fiskbúðinni sem varð til þess að þakið fór nánast af húsinu. Elsku litli strákurinn minn, fimm ára með svo stórar tilfinningar. Vanur því að eiga mömmu og pabba á sama heimili. Ég skildi ekki þá hvað var að eiga sér stað, jú ég áttaði mig á því að líklega væru breytingarnar í kjölfar skilnaðar foreldra hans honum erfiðar en taldi að hann hlyti að eiga við einhverskonar reiðivanda að stríða. Hann tók ekki þessi reiðisköst hjá pabba sínum heldur einungis hjá mér, nánast um leið og hann kom inn um hurðina heima fyrsta dag vikunnar sem við ætluðum að eiga saman. Ég fór að efast um sjálfa mig sem foreldri og taldi að barninu liði augljóslega illa að koma til mömmu sinnar. Ég fór líka að efast um pabba hans og líðan barnsins hjá honum, hann hlyti að mæta drengnum of af mikilli hörku sem orsakaði þessa vanlíðan. Ég fór að reyna að gera “allt rétt” til að koma í veg fyrir þessi köst en það dugði ekkert til. 

Eftir því sem ég sjálf varð öruggari í umbreytingum skilnaðarins áttaði ég mig á því að þessi köst voru leið barnsins til að losa spennu og vanlíðan. Svo ég leyfði þeim að koma en átti erfitt með að takast á við þau samt sem áður. Maður upplifir sig ansi vanmáttugan sem foreldri í svona aðstæðum.

Eftir að hafa kynnt mér tengslakenningar og virðingaríkt tengslauppeldi samhliða rannsóknum um líðan barna sem eiga foreldra á tveimur heimilum skildi ég hvað barnið mitt var að upplifa og afhverju hann varð svona reiður. Þetta snérist í raun um tvennt. 

Í fyrsta lagi um Tengslabrúna (umbreytingabrúna)  (e. Transition bridge) sem er myndlíking ætluð til að skýra þá tilfinningalegu- og andlegu áskorun sem barn þarf að takast á við að fara á milli tveggja heimila og yfirfæra tengsl sín frá einu foreldri til annars. Börn sem eiga foreldra sem búa saman og sinna umönnun barnsins í sameiningu, tileinka sér flæði á geðtengslum til umönnunaraðila. Þannig getur barn í slíkum aðstæðum svissað tengslum á milli foreldra í ákveðnu flæði á meðan börn sem búa við það að eiga foreldra á tveimur heimilum þurfa að slökkva á tengslum sínum við annað foreldrið þegar það fer til hins, aftengja og tengja.

Í öðru lagi var drengurinn minn að losa sig við nauðsynlega spennu og vanlíðan og reyna að tengja sig aftur við mig þegar hann kom. Börn mynda geðtengsl þegar þörfum þeirra er mætt og þá sérstaklega í aðstæðum þar sem þau eru óörugg eða hrædd. Við slíkar aðstæður er það svörun umönnunaraðila sem hefur áhrif á gæði geðtengsla. Útrás barnsins míns var þannig leið þess til að skapa aftur tengslin sem það þurfti að rjúfa við það að fara til föður síns. Barnið þurfti að fá staðfestingu á því að ég gæti mætt tilfinningalegum þörfum þess og að ég elskaði það sama hvað. Það besta sem ég gat gert var að sýna líðan barnsins skilning og hluttekningu, viðurkenna tilfinningar þess, vera til staðar, sýna hlýju og væntumþykju og passa að það skaðaði hvorki sig né aðra. Barnið þurfti á losun að halda og ég hætti að reyna að koma í veg fyrir köstin, heldur setti barninu mörk sem stundum framkvæmdu köstin og tókst þá á við þau, með barninu mínu. 

Til að setja sig í spor barns sem þarf að fara reglulega yfir tengslabrúna er hægt að ímynda sér að maður sé að fara í frí á frábæran stað. Við komu á áfangastað finnur maður fyrir tilhlökkun og spenningi fyrir því sem í vændum er en á sama tíma óöryggi yfir því að vera á nýjum stað.  Þegar fríið er hálfnað hefur maður líklega komið sér vel fyrir andlega, búin að aðlagast aðstæðunum og finnur fyrir tilhlökkun að nægur tími sé framundan. Þegar kemur svo að ferðarlokum byrjar maður ósjálfrátt að undirbúa sig andlega fyrir brottför, hugar að farangi og hvernig það verður að kveðja staðinn. Stundum er maður jafnvel farinn að sjá fyrir sér heimkomuna þegar fríið er rétt hálfnað og þannig kominn tilfinningalega á annan stað en maður er á í raun og veru. Börn sem fara á milli heimila þurfa að fara í gegnum ferli líkt þessu í hvert skipti sem þau fara á milli foreldra, þau þurfa að:

  1. Kveðja raunveruleikann sem þau búa við þá stundina og búa sig undir breytingar á umhverfi og aðstæðum.
  2. Safna saman dótinu sínu, hugsunum og því sjálfi sem þau tengja við núverandi aðstæður.
  3. Kveðja aðstæðurnar sem þau voru í og taka á móti þeim næstu.
  4. Koma í nýjan raunveruleika, taka upp úr töskunum og tengja aftur sjálfið við heimilið, umhverfið, fjölskyldugerð og foreldri.
  5. Koma sér fyrir, aðlagast og vera.

Hvernig getur foreldri hjálpað barni sínu við umbreytingarnar við að fara frá einu foreldri til annars? 

1. Skapaðu samfellu í lífi barnsins. 

Leitastu við að skapa aðstæður barnsins þannig að það upplifi ekki tilveru sína kafla skipta hjá hvoru foreldri fyrir sig,  þar sem það þarf að lifa tvennskonar lífi við tvennskonar raunveruleika. Þrátt fyrir að heimilin séu tvö og mjög líklega ólík (að því að einstaklingar eru ólíkir) þarf barnið að upplifa að veruleiki þess á hvoru heimili fyrir sig tengist í einni heild. 

Hafðu myndir af hinu foreldrinu í herbergi barnsins, leyfðu barninu að fara með dótið sitt á milli heimila. Hafðu dagatal á heimilinu þar sem merkt er við hvenær barnið er hjá hverju foreldri fyrir sig og hvaða atburðir eru að fara að eiga sér stað sama hjá hvoru foreldrinu það sé. Leitist við að hafa samræmdar reglur og kröfur til barnsins á heimilunum svo barnið viti að hverju það gengur á báðum stöðum. 

2. Hafðu innsæi í lífi barnsins hjá hinu foreldrinu

Áður en barnið kemur til þín, heyrðu þá í hinu foreldrinu og fáðu upplýsingar um hvernig líðan þess var. Hvað upplifði barnið ánægjulegt eða óánægjulegt? Við hvaða vini lék barnið sér við? Tók barnið einhverjum framförum í þroska? Hvernig var svefn barnsins? Ræddi barnið eitthvað sérstakt? Gerði barnið eitthvað snjalt eða sem kom á óvart. Eigi foreldrar í erfiðleikum með að ræða saman geta tölvupóstsamskipti létt þar á. 

Þegar barnið kemur til þín láttu það upplifa að þú hafir innsæi í aðstæður þess hina dagana án þess að yfirheyra barnið eða þylja allt upp. Það getur nægt að segja “pabbi sagði mér að það hefði gengið vel hjá ykkur í síðustu viku og að þú hefðir lært að taka strætó sjálfur!” 

3. Talaðu um foreldrið sem hluta af þínu lífi

Þegar samskipti foreldra eru erfið getur nafn hins foreldrisins hreinlega orðið að bannorði á heimilinu. Reyndu eftir fremsta megni að upplifa hitt foreldrið sem part af þínu lífi, ekki sem einstakling sem stendur fyrir utan þinn félagslega hring. Þetta atriði snýst fyrst og fremst hugarfarsbreytingu, hitt foreldrið er partur af þínu lífi því það er foreldri barnsins þíns. Þrátt fyrir ágreining og slæma framkomu hafa allir einhverja jákvæða eiginleika. Legðu þig fram við að sjá þá í stað þess að einblína á þá neikvæðu. 

Leitastu við að tala um foreldrið á jákvæðan hátt í eyru barnsins t.d. þegar verið er að grilla hamborgara “pabbi þinn grillar alltaf svo góða hamborgara, bestu hamborgara sem ég hef smakkað hugsa ég.” Þannig tengir þú hitt foreldrið við raunveruleika barnsins á þínu heimili og byggir upp jákvæða ímynd af foreldrinu.  

4. Skapaðu aðgengi að þér og hinu foreldrinu

Þrátt fyrir að umgengni sé 50/50 60/40 70/30 o.s.frv. eru foreldrar alltaf 100% foreldrar barnsins síns. Foreldri er ekki aðeins foreldri barnsins þá daga sem barnið er hjá því heldur ALLTAF. Þegar barnið er hjá pabba á það líka mömmu og öfugt. Barnið þarf að uppllifa það að hafa aðgengi að báðum foreldrum sínum þrátt fyrir að vera í umgengni hjá öðru þeirra þá stundina. Sum börn virðast ekki hafa neina þörf fyrir samskipti við það foreldri sem það dvelur ekki hjá en það skiptir máli hvort barnið upplifi sig samt sem áður geta átt í samskiptum við báða foreldra. Því þurfa samskiptin að vera leyfileg og aðgengileg. Þegar foreldrar búa í nálægð við hvort annað þarf barnið að upplifa að það geti farið “heim til sín” sama á hvoru heimilinu það dvelur þá stundina. Barnið þarf að upplifa að það eigi alltaf heimili á báðum stöðum þrátt fyrir að dvelja til skiptis hjá foreldum. 

5. Fylgdu barnu að tengslabrúnni

Eitt af því mikilvægasta fyrir líðan barns í umgengni er fylgd yfir og af tengslabrúnni. 

Fylgdin að tengslabrúni getur falist í því að undirbúa barnið andlega- og tilfinningalega fyrir skiptin, til dæmis með því að minna á að nú fari að líða að vikulokum og þá fari það til hins foreldrisins. Þá er gagnlegt að ræða þær tilfinningar sem barnið geti fundið fyrir í tengslum við það að eiga foreldra á tveimur heimilum. Það geti verið bæði spennandi og flókið í senn og að maður gæti bæði fundið fyrir tilhlökkun fyrir því að hitta foreldrið sitt en á sama tíma verið leiður yfir því að þurfa að kveðja hitt. 

Hluti að því að fylgja barninu á tengslabrúnna er að hjálpa því við að pakka og taka saman dótið sitt, ákveða hvað það ætli að taka með sér og hvað það vilji skilja eftir. Það getur verið mikilvægt barninu að kveðja núverandi umhverfi á ákveðinn hátt t.d. með því að stilla upp leikföngum eða hlutum og upplifa að það bíði eftir því þangað til að það komi aftur. 

Foreldri getur stutt barnið á tengslabrúna með því að ræða við það hvað bíði þess á hinu heimilinu og veitt upplýsingar frá hinu foreldrinu um mögulega atburði sem munu eiga sér stað í samveru barnsins þar. Fyrir sum börn getur verið gagnlegt að ræða við foreldri í síma daginn áður en það fer til þess til að hefja tengsla yfirfærsluna áður en skiptin sjálf eiga sér stað. 

6. Fylgdu barninu af tengslabrúnni

Talið er að lykilatriði í farsælu ferðalagi barns yfir tengslabrúna séu hvernig skiptin sjálf fara fram. Það sem auðveldar barni hvað mest tengsla yfirfærsluna er ef skiptin fara fram á milli foreldra auglitis til auglitis í rólegum aðstæðum. Foreldrar geta samt sem áður sótt barnið í leikskóla/skóla en skipt svo á dóti og kvatt barnið seinnipartinn á heimili þess foreldris sem barnið var að fara til. Slíkar aðstæður hjálpa barninu við að yfirfæra tengslin frá einu foreldri til annars þar sem það upplifir að foreldrið sem það er að kveðja sé reiðubúið að afhenda hinu foreldrinu tengslin. Það svipar til þess þegar foreldrar afhenda barnið  í hendur t.d. leikskólastarfsmanns og sýna barninu með látbragði og orðum að nú hafi þessi tiltekni starfsmaður tekið við tengslum foreldris og honum sé treystandi fyrir barninu. Við þessar aðstæður upplifðir barnið einnig að samskipti foreldra séu í lagi, að þeir geti rætt um sig og upplifað það sjalfgæfa augnablik að vera með báðum foreldrum sínum samtímis. Slíkt veitir barninu öryggi og staðfestingu á að foreldrar séu færir til að vinna í sameiningu að hagsmunum þess.  

Séu samskipti foreldra erfið og flókin getur verið betra ef skiptin fara eingöngu fram hjá þriðja aðila s.s. skólastofnun eða ættingja til að hlífa barninu fyrir óþarfa álagi og streitu. 

Sum börn þurfa að fá tilfinningalegt og andlegt rými til að aftengja sig einu foreldri og undirbúa sig fyrir að tengjast því næsta. Þau þurfa líka rými til að lenda í aðstæðunum, átta sig á andrúmsloftinu og koma sér fyrir andlega og líkamlega. Foreldri þarf að sýna barninu að það sé velkomið en á sama tíma að gefa því þetta rými. Sum börn eiga erfitt með að skapa aftur tengslin við foreldrið eru að fást við erfiðar tilfinningar s.s. söknuð í garð hins foreldrisins og vilja þá stundum loka sig af eða sýna erfiða hegðun út á við. Foreldri getur þá sest inn til barnsins, sýnt því að það taki eftir því og að það sé til staðar og að rými sé fyrir tilfinningar barnsins. Þær tilfinningar sem barnið finnur fyrir eiga rétt á sér og þurfa að fá að koma á yfirborðið. Sum börn þurfa einn til tvo daga við að ná jafnvægi aftur á heimilinu og skapa tenginu við foreldið. 

Foreldrar upplifa stundum að barnið sé óþekkt þegar að það kemur frá hinu foreldrinu og kenna ýmsu um í aðstæðum hjá því foreldri t.d. að það sé að ala upp í því frekju, að það fái að horfa of mikið of sjónvarp, vaka of lengi o.s.frv. Mögulega er ástæðan hins vegar sú að barnið sýnir erfiða hegðun þar sem það er að reyna að tengjast aftur foreldri sínu og kanna mörkin í núverandi umhverfi. Hegðunin ber vott um óöryggi barnsins og viðbrögð þess eru eftir því. 

Það sem gæti hjálpað barnið við aðlögun við komu í umgengni er að vita hver rútínan sé þegar það kemur. Sem dæmi að uppáhalds matur barnsins sé í matinn daginn sem það kemur. Til að auðvelda barninu að tengjast aftur getur foreldri lagt sig fram við að sýna barninu athygli með snertingu og augnsambandi.  Þá getur verið mikilvægt að hafa ró í umhverfinu og ekkert planað annað en samvera með barninu.  

7. Hugaðu að þörfum barnsins þíns

Börn eru misjöfn og það sem hentar einu barni hentar ekki endilega öðru. Það sem meira er, það sem hentar barni á einum tímapunkti hentar því alls ekki á öðrum. Börn hafa mismunandi þarfir eftir aðstæðum, aldurs- og þroskaskeiðum. Til að mæta þörfum þess þurfa foreldrar að leitast við að setja sig í spor barnsins og sjá tilveruna út frá sjónarhorni þess. 

Það að foreldrar geti í sameiningu sett sig í spor barnsins síns með því að miðla upplýsingum um upplifun sína á barninu og aðstæðum þess er barninu gífurlega mikilvægt. Við það myndast heildræn sýn á aðstæður og hagsmuni barnsins sem gerir foreldra enn betur í stakk búin að mæta þörfum þess.

Hvernig gengur þínu barni að fara yfir tengslabrúnna?