Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir

Ráðgjafi

Umgengi ungra barna

Síðustu vikur hef ég fengið til mín foreldra ungra barna sem eru í vafa um hvernig fyrirkomulag á umgengni barna þeirra eigi að vera. Foreldrar sem eru að slíta samvistum og vilja vera áfram virkir umönnunaraðilar barna sinna en eru ekki viss um hvernig umgengni falli best að þörfum barnsins. Ýmsar skoðanir varðandi umgengni barna eru í samfélaginu og koma þær iðulega fram í frásögnum foreldra í viðtölum. Sem dæmi um skoðanir:

  • Það er best fyrir barn að eiga eitt aðsetur eða heimili og fara í umgengni til foreldris aðra hverja helgi.
  • Foreldrar eiga rétt á jafnri umgengni.
  • Börn eigi ekki að gista hjá umgengnisforeldri fyrr en við tveggja ára aldur.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að börn sem eiga í ríkulegum tengslum við báða foreldra sína eftir skilnað búa að jafnaði við betri lífsskilyrði en börn sem eiga í litlum tengslum við annað foreldrið. Rannsóknir hafa jafnvel sýnt fram á að góð tengsl barns við umgengnisforeldri hafi jákvæð áhrif á tengsl barns við það foreldri sem það býr að jafnaði hjá. Ríkuleg tengsl barns við báða foreldra getur haft töluverð áhrif á velferð barns eftir skilnað en það helst þó í hendur við samskipti foreldra og gæði foreldrasamstarfs. Slíkt samstarf er ef til vill enn nauðsynlegra þegar það kemur að umönnun ungra barna á tveimur heimilum til að skapa heildstæða umönnun þess.

Eftirfarandi er gagnlegt fyrir foreldra að hafa í huga þegar verið er að meta eða ákveða umgengni ungra barna:

  1. Foreldrar eru sérfræðingar í aðstæðum sinna barna. Börn eru eins ólík og þau eru mörg og ráða á misjafnan hátt við aðstæður. Umgengni sem hentar einu barni hentar ekki endilega öðru. Þá ráða börn misjafnlega við aðstæður eftir aldri, þroska og tímabilum í þeirra lífi því getur fyrirkomulag á umgengni tekið breytingum í takt við aðstæður barnsins. Foreldrar þurfa að leggja sig fram við að skynja og skilja barnið og hvernig það ræður við aðstæðurnar. Í því felst meðal annars að treysta hvort öðru fyrir upplifun sinni á barninu t.d. ef mamma upplifir að barnið sé ekki að ráða nægjanlega vel við fyrirkomulagið ætti pabbi að trúa og treysta á upplifun hennar og vera reiðubúinn að skoða aðra möguleika og öfugt.
  1. Börn sem búa að öruggum geðtengslum sýna viðbrögð: Það er yfirleitt ákveðið áfall fyrir barn þegar mamma og pabbi skilja og fara í sitthvora áttina. Heimurinn sem það upplifði sem staðfestu og öryggi  “mamma, pabbi, ég”  tekur breytingum. Foreldrar eru upphaf og endir á heimsmynd ungra barna og við skilnað rofnar sú mynd. Barnið getur fundið fyrir óvissu og óöryggi og upplifað að  ef mamma og pabbi gátu misst hvort annað geti það líka misst þau. Þegar börn takast á við breytingar er eðlilegt að þau sýni viðbrögð við þeim, sérstaklega börn sem eru eiga örugg geðtengsl við foreldra sína. Börn sýna viðbrögð við ýmsum breytingum, jákvæðum og neikvæðum t.d. vegna sumarleyfa, í tengslum við afmæli, við að færast um deild í leikskóla, við flutninga, við það að breyta um herbergi eða rúm. Þegar verið að að ákveða eða fylgja ákveðnu fyrirkomulag á umgengni t.d. með aðlögun að reglulegri umgengni þarf að vega og meta viðbrögð barnsins. Eðlilegt er að barnið sýni einhver viðbrögð við því að fara á milli foreldra en sé það upplifun foreldris að viðbrögðin séu merki um ofálag þurfa foreldrar að gera breytingar á því sem henta barninu betur. Merki um ofálag er t.d. ef barnið fer að sýna mikil einkenni aðskilnaðarkvíða, nærast illa, sofa illa, hægðartregða og afturför í þroska. Mikilvægt er að koma þá til móts við þarfir barnsins til dæmis með því að auka tíðni umgengnisskipta, stytta tímalengd umgengni og/eða færa staðsetningu á stað sem barnið þekkir.  Mikilvægt er að gefa tilfinningum barnsins rými t.d. þegar því er skilað og sótt að foreldrar staldri við og gefi barninu færi á að taka sér sinn tíma í að koma og fara.
  1. Umönnun barn fyrir skilnað/sambandsslit: Þegar ákveða á umgengni þarf að hafa í huga hvort foreldrar hafi hingað til skipt með sér umönnun barnsins jafnt eða hvort annað foreldri verið ríkjandi sem umönnunaraðili. Ef umönnun barnsins var nokkuð jöfn áður er það eðlilegast fyrir barnið að hún sé nokkurn vegin þannig líka eftir sambandslit foreldra. Það getur verið töluverður missir fyrir barn við skilnað að verða af umsjá og samveru annars foreldris síns. Rannsóknir sýna að sú tilfinning sem börn sitja uppi með í kjölfar sambandsslita foreldra er söknuður og því mikilvægt að mæta þörf barnsins á að umgangast báða foreldra sína og mynda við þá náin tengsl.
  1. Öllum líði vel með ákvarðanir: Börn endurspegla heiminn út frá upplifun foreldra sinna. Treysti foreldri aðstæðum gerir barn það yfirleitt líka. Því ættu foreldrar að leita leiða til að haga fyrirkomulag á umgengni út frá vilja þeirra beggja en ekki með þvingunum, pressu eða afarkostum. Það er best fyrir barnið að öllum líði vel með það sem er ákveðið og að samkomulag sé um hvernig hlutunum eigi að vera háttað.
  1. Fyrirsjánleiki og stöðugleiki: Börn á aldrinum núll til þriggja ára eru á einu mikilvægasta tímabili tengslamyndunar við umönnunaraðila sína og því verður umgengni að styðja við en ekki trufla þroska þeirra. Ef mikið rót er í umhverfi barnsins getur það valdið barninu álagi og það sýnt merki um ótta eða óöryggi. Börn á aldrinum eins til þriggja ára hafa ekki öðlast fullkomið tímaskyn og átta sig ekki á hugtökum s.s. “á morgun, eftir viku, í gær.” Því skiptir máli að regla sé á umgengni og stöðugleiki á hvenær barnið sé í heimsókn og hvenær það sé að fara að vera í einhverja daga og gista. Til að koma til móts við þetta væri ráðlegt að hafa mismunandi rútínu í tengslum við umgengnina eftir því hvort barn sé að koma í nokkrar klukkustundir eða yfir helgi. Hvort sem um ungabörn eða eldri börn er að ræða er mikilvægt að undirbúa barnið og tala við það um það sem er að gerast. Segja við barnið að það sé að fara til pabba/mömmu áður en það fer og útskýra aðstæðurnar sem barnið er í svo sem: “núna ætlar mamma að rétta þig til pabba, vá pabbi er svo glaður að sjá þig” og “nú er mamma að fara og mamma kemur svo aftur á eftir”
  1. Tíðni fremur en lengd: Þegar kemur að umgengni ungra barna skiptir tíðni meira máli en lengd umgengninnar þar sem langtímaminni ungra barna er enn í mótun.  Til að viðhalda tengslum og koma þeim á skiptir tíminn á milli hittinga stundum meira máli heldur en hve lengi umgengnin sjálf varir. Gagnlegt getur verið að setja niður aðlögunarplan að reglulegri umgengni sem miðast að því að lengja tíma umgengninnar samhliða því að lengja á milli skipta.
  1. Samskipti og upplýsingamiðlun: Barn á rétt á því að foreldrar þess séu upplýstir um hagi þess og líðan. Foreldrar þurfa að geta séð líf barna sinna heildstætt til að geta áttað sig á þörfum þeirra og mætt þeim. Það er sérstaklega mikilvægt þegar kemur að ungum börnum þar sem þau eru ekki fær um að tjá sig nema að takmörkuðu leyti, átta sig sjálf ekki á hvaða upplýsingar sem snúa að umönnun þess séu mikilvægar né hafa færni til að setja hlutina í samhengi s.s. að ekki sé ráðlagt að fara í sund eftir að hafa verið með eyrnabólgu. Foreldrar bera þar ábyrgð á að koma mikilvægum upplýsingum á framfæri sín á milli og leitast við að halda rútínu barnsins sem líkastri á milli heimilanna með það að markmiði að skapa samfellu í umönnun barnsins.

  2. Lausnamiðun: Leitið lausna sem hentar ykkar barni. Ef það á erfitt með að breyta um umhverfi gæti verið gagnlegt að umgengnisforeldri sé með barnið í einhver skipti á heimilinu sem það býr meira á. Til dæmis að  pabbi svæfi barnið heima hjá mömmu. Þá færi barnið tækifæri á að upplifa þessa ákveðnu heild í umönnun þar sem það saknar ekki annars foreldrisins. Þá fær barnið tækifæri á að upplifa flæði tengsla á milli foreldra.

Að lokum: Það er flókið að vera foreldri ungs barns, að þurfa sífelt að rýna í þarfir barnsins og átta sig á hvað sé viðeigandi umönnun út frá þroska. Að ala upp ungt barn á tveimur heimilum getur verið heljarinnar áskorun en það er til svo mikils að vinna. Með góðri samvinnu og umgengni sem miðast að hagsmunum og þörfum barnsins geta foreldrar skapað mikilvægan og öruggan grunn að lífi barns á tveimur heimilum. Það sem þarf er æðruleysi, ást og jákvæðni gagnvart aðstæðunum.